Samstarf heimila og skóla

Síða foreldrafélags Þelamerkurskóla

Gott samstarf heimila og skóla er ein af forsendum góðs skólastarfs og hefur þann tilgang helstan að stuðla að vellíðan nemenda. Til þess að samskipti verði árangursrík og góð þurfa allir starfsmenn skólans og foreldrar að leggja sitt af mörkum.  Öll þátttaka foreldra í skólastarfinu er mikilvæg. Kennarar og stjórnendur Þelamerkurskóla leggja sig fram um að vera í góðum samskiptum við foreldra um þau mál er snerta einstaka nemendur, heimanám og annað sem snýr að starfi bekkjarins eða skólastarfið almennt. Boðið er upp á foreldraviðtöl svo oft sem þurfa þykir en formleg slík viðtöl eru tvisvar á hverju skólaári. Koma foreldrar þá í skólann á fund umsjónarkennara. Umsjónarkennari og foreldrar hafa einnig samband símleiðis eða með tölvupósti eftir atvikum. Á hverju skólaári skal vera kynning á starfinu í hverjum bekk ásamt því sem foreldrum er skapaður samræðugrundvöllur um málefni er lúta að börnum þeirra. 

Annað foreldrasamstarf er sem hér segir:

  • Kennarar senda upplýsingar um starfið í bekknum heim í lok hverrar viku, vikupóstur. 
  • Dagskrá hvers mánaðar er birt á heimasíðu skólans.
  • Foreldrar hafa aðstoðað við skíðaskóla Þelamerkurskóla sem er fyrir nemendur í 1. - 4. bekk.

Veikindi og leyfi nemenda -  Hér má nálgast eyðublað til að sækja um leyfi í meira en tvo daga

Foreldrar tilkynni veikindi nemenda á skrifstofu skólans í síma 460-1770 eða í tölvupósti til umsjónarkennara eða á netfangið thelamork@thelamork.is (sá póstur fer til skólastjóra og skólaritara )

Ef misbrestur verður þar á er litið svo á að um óheimila fjarvist sé um að ræða. Standi veikindi yfir í nokkra daga ber að tilkynna þá fyrir hvern dag.

Þurfi nemandi leyfi er hægt að sækja um það til umsjónarkennara þegar um er að ræða einn eða tvo daga. Ef um lengra leyfi er að ræða þarf að sækja sérstaklega um það hjá skólastjórnendum á þar til gerðu eyðublaði sem er skilað til skólastjórnenda. (hlekkur á eyðublaðið er neðst á þessari síðu) Nám nemenda í leyfum þeirra er á ábyrgð foreldra.

Foreldrar eru beðnir um að skoða skóladagatal skólans vel og best er að haga fríum sínum þannig að sem minnst rask verði á skólagöngu barnsins. Samkvæmt grunnskólalögum skulu skóladagar á ári vera 180 talsins.

Í lögum um grunnskóla segir svo: „Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu frá skólasókn er skólastjóra/aðstoðarskólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara barnsins telji hann til þess gildar ástæður. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.“

Samtöl foreldra, nemenda og kennara

Í október er fyrri formlegi viðtalsdagur í skólanum þar sem foreldrar, nemendur og kennarar ræða stöðuna á námi og líðan nemenda.

Í febrúar er seinni formlegi viðtalsdagurinn. Þá er farið yfir námsmat haustannar og sett markmið fyrir vorönnina.

Vikuleg fréttabréf

Umsjónarkennurum er ætlað að senda fréttabréf vikulega heim til nemenda, svokallaðan föstudagspóst. Í fréttabréfunum eiga að vera fréttir frá líðandi viku og áætlanir og viðburðir komandi viku.                                                                   

Tölvupóstur til kennara

Kennarar svara tölvupósti foreldra eftir kennslu. Foreldrar geta ekki treyst því að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs og því er betra ef erindið er brýnt að hringja á skrifstofu skólans.

Tölvupóstur í samskiptum heimila og skóla 

Hvenær á að nota tölvupóst?

  • Tilkynna veikindi.
  • Leita upplýsinga.
  • Hrósa kennara/skóla fyrir það sem vel er gert.
  • Óska eftir fundi eða ráðum.
  • Gera athugasemdir um það sem þér finnst miður fara.

 Hvenær á ekki að nota tölvupóst?

  • Ekki ræða viðkvæm, persónuleg mál í tölvupósti – hringja og panta viðtal.
  • Ekki er alltaf tryggt að tölvupóstur sé öruggur. Aðrir geta lesið póstinn og pósturinn getur „óvart“ farið á annað/önnur netföng.
  • Ekki er hægt að eyða bréfi sem hefur verið sent eða breyta því á nokkurn hátt.

                                                          Hafið tölvupósta ávalt hnitmiðaða og skýra