- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Í námskrá skólans er lögð áhersla á það að nemendur taki þátt í að móta eigið starfsumhverfi, félagslíf og menningarlíf. Nemendaráð starfar við skólann og er skipað fimm nemendum úr 5. - 10. bekk. Helstu verkefni nemendaráðs eru á vettvangi félagsmála og er skipulag félagsstarfsins fyrir nemendur skólans í þeirra höndum. Lögð verður áhersla á frumkvæði og markviss vinnubrögð, að fundir verði markvissir og skilvirkir.
Í skólanum er rekin nemendaverslun sem heitir Dúddabúð. Verslunarstjórar sjá um innkaup fyrir sjoppuna og halda utan um rekstur hennar. Innkaup eru gerð í samráði við umsjónarmann félagslífs. Einnig er það á ábyrgð sjoppustjóra að skipuleggja vinnutöflu fyrir sjoppuna.
Auk nemendaráðs starfa nemendur í ólíkum nefndum og ráðum innan skólans og á þessari síðu má sjá yfirlit yfir nefndir og ráð, meðlimi, starfsáætlanir og fundargerðir.
Félagslíf 1. - 4. bekkjar: Félagslíf yngsta stigs byggist mikið á þátttöku foreldra og stendur og fellur með því hvernig til tekst að virkja þá. Ein skipulögð dagskrá á vegum skólans verður u.þ.b. tvisvar á ári. Lögð er áhersla á að bjóða þessum nemendahópum upp á leiksýningu einu sinni á ári í samvinnu við foreldrafélag skólans.
Félagslíf 5. - 7. bekkjar: Ein skipulögð dagskrá verður annan hvern mánuð hjá þessum bekkjum auk þess sem félagsmiðstöðin Kelikompan er hópnum opin tvisvar sinnum í mánuði. Félagslíf miðstigsins kallar á þátttöku foreldra í samvinnu við umsjónarkennara.
Félagslíf 8. - 10. bekkjar: Með tilkomu félagsmiðstöðvarinnar Kelikompunnar hefur félagslíf hópsins að miklu leyti færst þangað. Félagsmiðstöðin er meðlimur í Samfés og tekur þátt í viðburðum á þeirra vegum. Félagsmiðstöðin er opin fyrir 8.-10. bekk eitt kvöld í viku.
Skólaferðalag 9.-10. bekkjar: Nemendur 9. og 10. bekkjar fara saman í skólaferðalag sem þýðir að slík ferð er farin annað hvert ár. Umsjónarkennarar hópsins eru umsjónaraðilar fjáröflunar fyrir ferðalagið og vinna að henni í samvinnu við nemendur og foreldra þeirra. Skólastjóri er ábyrgur fyrir varðveislu ferðasjóðs.
SAM-skólasamstarf: SAM-skólaviðburðir eru eingöngu ætlaðir nemendum SAM-skólanna; Þelamerkurskóla, Valsárskóla, Grenivíkurskóla og Stórutjarnarskóla.