- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Samantektarfrétt að þemavinnu lokinni
Nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla ákváðu að fara af krafti í þemavinnu um þá Nonna og Manna. Vinnan hófst með stuttri kynningu á þeim bræðrum og á sex vikna tímabili horfðu allir nemendur og starfsfólk saman á einn sjónvarpsþátt á viku um kappana og þeirra ævintýri. Þættirnir sex, sem nutu mikilla vinsælda fyrir mörgum árum síðan, féllu gríðarlega vel í kramið hjá nemendum og mátti sjá einbeitingu og áhuga skína úr hverju andlitið við áhorfið. Samhliða áhorfi á þættina söfnuðu nemendur orðum og hugtökum sem þeir leituðu skýringa á og bjuggu til myndverk og söguvegi út frá söguþræði einstakra þátta.
Þemavinnan náði hámarki í vikunni fyrir Dag íslenskrar tungu en þá viku var allt skólastarf undirlagt í fjölbreyttri skapandi vinnu byggða á sögu þeirra bræðra og umhverfi og aðstæðum sem þeir ólust upp við. Nemendur völdu sér stöðvar frá degi til dags og góð aldursdreifing varð á öllum stöðvum. Í boði var að baka bakkelsi í anda fyrri tíma, endurgera og framleiða senur úr þáttunum, fræðast um Jón Sveinsson, kynnast fatnaði, tónlist og tískustraumum fyrri tíma, búa til líkön úr pappamassa og endurgera persónur og umhverfi eða gerast fréttamenn og framleiða fréttir. Auk þess var ein mikilvæg stöð sem kallast hvíldarstöð, en þangað var hægt að fara til að taka sér pásu, spila, lesa, leira og kubba.
Á síðasta degi vikunnar var blásið til lokahátíðar þemavinnunnar. Starfsfólk dressaði sig upp í þjóðbúninga eða búninga eins og persónur þáttanna klæddust og nemendur mættu sumir spariklæddir eða klæddir fatnaði frá fyrri tíma. Foreldrum/forráðamönnum, ömmum og öfum og sveitungum öllum var boðið til hátíðarhalda. Fyrst var opið hús þar sem gestir skoðuðu afrakstur vinnunnar, kíktu í kvikmyndahús, settust niður á kaffihúsinu og gæddu sér á bakkelsi sem nemendur bökuðu og blönduðu geði. Jafnframt var boðið uppá stutta reiðtúra á skólalóðinni hvar knapar úr hópi nemenda teymdu undir áhugasömum. Að lokum var blásið til hátíðardagskrár á sviði þar sem glaðir gestir fylltu salinn okkar. Nemendur spiluðu og sungu, héldu tískusýningu og dönsuðu skottís og vikivaka. Rúsínan í pylsuendanum var svo að kynna á svið heiðursgesti dagsins, en það voru þeir Garðar Thor Cortes og Einar Örn Einarsson, sem léku Nonna og Manna í áðurnefndum þáttum. Fréttamenn úr röðum nemenda breyttu sviðinu í stúdíó og spurðu heiðursgestina spjörunum úr. Þeir félagar slógu í gegn, eins og þeirra er von og vísa og var það ekki síður eldra fólkið en það yngra sem gladdist yfir heimsókn þeirra í skólann.
Það voru sælir og glaðir starfsmenn sem fögnuðu saman að góðu verki loknu. Nemendur stóðu sig frábærlega í þessari vinnu og samhljómur var um að skólastarf sem þetta gefur lífinu lit.
Frá fréttastofu Þelamerkurskóla - samantekt
Skottís og vikivaki - hátíðardagskrá
Myndasafn frá þemavinnunni, vettvangsferð og lokahátíð
Á þessari síðu birtast fréttir frá nemendum úr Nonna og Manna þemavinnu skólans.
Mánudagur 11. nóvember 2019
Í gær hófst þemavika um Nonna og Manna hjá öllum nemendum í Þelamerkurskóla. Síðustu vikur höfum við horft á þættina um Nonna og Manna og í þessari viku fara nemendur á ýmsar stöðvar þar sem þeir eru að vinna ýmislegt sem tengist þeim félögum. Við fórum á milli stöðva, kipptum út nokkrum krökkum og tókum viðtal við þau um þemaverkefnið.
Hér getið þið séð viðtölin við nemendur
Þriðjudagur 12. nóvember 2019
Á góðri fréttastofu eru framleiddir fjölbreyttir mannlílfsþættir. Einn þeirra er Landi Þelamerkurskóla. Í Landanum að þessu sinni var fjallað um þemavikuna sem er í gangi auk þess sem tekin voru viðtöl og vinna nemenda skoðuð.
Smellið hér til að sjá Landa þáttinn.
Fréttafólk Þelamerkurskóla hefur í nógu að snúast og auk þess að taka viðtöl við fólk á förnum vegi hefur fréttastofan útbúið myndband með svipmyndum úr vinnu dagsins.
Fimmtudagur 14. nóv. 2019
Í dag var verið að leggja lokahönd á vinnu á öllum stöðvum. Nemendur og starfsfólk kláruðu afurðir sínar og undirbjuggu hátíðarhöldin á morgun. Viðtöl og innsýn í vinnu dagsins er að finna hér.