Skólahreysti

Skólahreysti
Skólahreysti

Keppni í Skólahreysti fer fram á Akureyri í dag. Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins.  Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum sem öll þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk síns skóla.  Keppt er í eftirfarandi keppnisgreinum:

  • Upphífingum (strákar) 
  • Armbeygjum (stelpur)
  • Dýfum (strákar)
  • Hreystigreip (stelpur)
  • Hraðaþraut  (strákar og stelpur)
Keppendur frá Þelamerkurskóla eru eftirtaldir: 
 

Hulda Kristín Helgadóttir, hraðabraut. Hulda hefur æft frjálsar íþróttir af kappi frá 6 ára aldri með Ungmennafélaginu Smáranum og undanfarin ár með UFA. Hennar helstu greinar eru þrístökk, grindahlaup, langstökk og spretthlaup. Henni finnst mjög gaman að hlaupa og fer oft út að hlaupa þegar tími gefst. Hulda æfði fótbolta lengi með með Smáranum en hefur lagt þann feril á hilluna.

Oddrún Kristín Marteinsdóttir, armbeygjur og hreystigrip. Oddrún hefur lengi haft mikinn áhuga á íþróttum og æfir badminton, fótbolta, frjálsar íþróttir og hestaíþróttir af miklu kappi. Þess á milli tekur hún í saumavél, en hún stefnir á að verða kjólameistari síðar á ævinni, eða spilar á harmonikkuna.

Helgi Pétur Davíðsson, hraðabraut. Helgi er mikill íþróttamaður, æfir handbolta með KA og frjálsar með UFA, þar sem hans helstu greinar eru grindahlaup og 60m hlaup. Helgi er Íslandsmethafi 14 ára í grindahlaupi og 60m hlaupi. Á milli æfinga og skóla spilar Helgi á bassa.

Bjarki Jarl Haraldsson, upphífur og dýfur. Bjarki hefur æft skíði frá 4 ára aldri með Skíðafélagi Dalvíkur, í vetur ákvað hann þó að taka sér pása frá skíðasportinu. Hans helsta áhugamál tengsist mótorsportinu en honum finnst fátt skemmtilegra en að hendast um holt og hæðir á krossara.

Þóra Björk Stefánsdóttir, varamaður. Þóra æfir handbolta með KA og hefur tekið þátt í landsliðsúrtökum undanfarin ár. Einnir spilar hún á fiðlu og saxafón.

Agnar Páll Þórsson, varamaður. Agnar æfir handbolta með KA. Þá stundar hann hestaíþróttir af miklu kappi á sumrin enda bóndadrengur mikill. Einnig spilar hann á gítar.

Nemendum 7. - 10. bekkjar er boðið með á keppnina. Lagt verður af stað frá skólanum kl. 12.30 og áætlað er að keppninni ljúki klukkan 15.20. Þá verður nemendum ekið heim að skóla og það er foreldraakstur heim. Þrír kennarar fara með nemendum á keppnina. Það eru Arnar Gauti íþróttakennari, Berglind og Sigríður G.

Hér eru myndir sem teknar voru á keppninni í gær.