- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Þann 5. desember sl. fagnaði Þelamerkurskóli 60 ára afmæli sínu með pompi og prakt. Nemendur höfðu undirbúið afmælisdaginn á fjölbreyttan hátt með þemaviku nokkru áður þar sem þau lærðu um skáldin úr heimabyggð, bjuggu til pappamassaverk af skáldunum og myndverk af kirkjum sveitarinnar. Þau héldu úti fréttastofu, bjuggu til heimasíðu með fróðleik um sveitina, bökuðu mikið magn af bakkelsi til að bjóða afmælisgestum uppá, settu upp magnaða sögusýningu með allt að 60 ára gömlum minningum úr skólastarfinu, gáfu út veglegt skólablað, bjuggu til stuttmyndir úr þjóðsögum úr Hörgársveit og bjuggu til vegglistaverk sem táknar sveitina okkar.
Afmælisdagurinn hófst á okkar árlega jólaljósadegi, þar sem allir nemendur og starfsfólk fara með friðarkerti upp í hlíðina ofan við skólann. Kveikt voru ríflega hundrað friðarljós sem svo tóku vel á móti afmælisgestum seinna um morguninn. Það ríkir mikil ró og fegurð yfir börnunum þegar þau njóta friðarljósanna í snjónum og stór og lítil börn hjálpast að.
Vel á þriðja hundrað gesta sóttu okkur heim á afmælishátíðinni og nutu þess sem fyrir augu, eyru og munn bar. Kórinn okkar söng fyrir afmælisgesti auk þess sem nemendur tónlistarskólans héldu úti lifandi tónlist á kaffihúsum þar sem nemendur buðu upp á veglegar veitingar. Tveir nemendur úr 7. bekk lásu upp ljóðið Skólasöngur Þelamerkurskóla og skólanum voru færðar góðar gjafir. Gamlir nemendur skólans, fyrrum starfsfólk og fjöldi aðstandenda gáfu sér góðan tíma til að skoða afrakstur af vinnu nemenda, rifja upp gamlar minningar og njóta samveru hvers annars. Á útiskólasvæðinu okkar í Mörkinni var boðið upp á varðeld, heitt kakó eða jólaglögg, grillaða sykurpúða og hangikjöt auk þess sem nemendur voru með leiðsögn um svæðið.
Nemendur og starfsfólk skólans eru afar þakklát öllum sem nutu dagsins með okkur.
Hér má sjá myndir frá afmælisdeginum
Hér má sjá stuttmyndir nemenda sem unnar voru upp úr þjóðsögum úr heimabyggð