Fatasöfnun fyrir börn á Grænlandi

Krakkar í skólanum í Ittoqqortoormiit
Krakkar í skólanum í Ittoqqortoormiit

Hrókurinn, í samvinnu við fjölmarga aðila, stendur nú fyrir söfnun á fötum og skófatnaði fyrir börn á Austur-Grænlandi, en þar búa næstu nágrannar Íslendinga. Skólar víða um land, fyrirtæki og einstaklingar taka þátt í söfnunni sem stendur út september. Verndari söfnunarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands.

Til söfnunarinnar var stofnað í samvinnu við skólastjórnendur í Ittoqqortoormiit við Scoresby-sund, sem er á 70. breiddargráðu. Hróksmenn þekkja vel til í þessu 450 manna þorpi, eftir að hafa skipulagt þar veglegar páskaskákhátíðir fyrir börn og ungmenni síðustu átta árin. Óskað er eftir hverskyns nýjum eða óslitnum og hreinum fötum og skóm á börn á aldrinum 0-15 ára. (texti fenginn að láni frá heimasíðu Hróksins)

Föstudaginn 12. september verður Grænlandsdagurinn í Þelamerkurskóla. Þá munu nemendur vinna verkefni til að fræðast um landið meðal annars með því að taka á móti gestum sem þekkja vel til á Grænlandi. Þennan dag koma nemendur með framlag sitt í söfnunina. Framlagið er 1-3 flíkur eða skór (íþróttaföt, hlý föt og kuldaskór eru vel þegin). Nemendum er falið að finna 1-3 flíkur sem þeir halda að komi að góðum notum hjá grænlenskum jafnaldra þeirra eða einhverjum sem er yngri.

Hægt er að fylgjast með fréttum af fatasöfnuninni á Facebook síðu hennar.