Frábæru opnu húsi lokið - Takk fyrir komuna

Fjölmenningarvikunni lauk í dag með opnu húsi þar sem nemendur sýndu afrakstur vinnu liðinnar viku. Gestir fóru í ferðalag um Evrópu, Asíu og Ameríku, gátu gætt sér á smákökum úr heimsálfunum, föndruðu jólaskraut í myndmenntastofunni og margt fleira. Gestum var auk þess boðið upp á ljúffenga kjötsúpu og var gaman að sjá hversu margt fullorðið fólk nýtti tækifærið og borðaði með börnum sínum. Dagurinn var einstaklega vel heppnaður í alla staði, gleðin var við völd hjá nemendum, starfsfólki og gestum.  

Nemendur í 3., 7. og 8. bekk unnu verkefni sem tengdust Asíu í vikunni og settu upp sýningu í stofu 1. Þar mátti meðal annars sjá dreka, fána landanna, alls kyns listaverk, pöndur, bambus, kirsjuberjatré, myndabás, boðið var upp á kínverskar smákökur og fengu gestir að spreyta sig á kínversku letri. 

Nemendur í 1., 4., 9. og 10. bekk unnu verkefni sem tengdust Evrópu og settu upp sýningu í stofu 4. Nemendur unnu meðal annars kort af Evrópu, gerðu fána landanna, bökuðu evrópskar smákökur, teiknuðu myndir af kennileitum heimsálfunnar, unnu með þekktar persónur úr sögum og ævintýrum, kynntu sér evrópsk leikföng, dýr og margt fleira.

Nemendur í 2., 5. og 6. bekk unnu með Norður- og Suður-Ameríku. Þar tók rauði dregillinn á móti gestum ásamt landakortum, fánum landanna, dýrum og listaverkum sem tengdust heimsálfunum s.s. myndir tileinkaðar Degi hinna látnu sem haldinn er hátíðlegur í Mexíkó og Tótem stólpa sem frumbyggjar í Norður-Ameríku hafa búið til í margar aldir. Hægt var að taka mynd af sér í regnskógum Amazon og stilla sér upp á rauða dreglinum.

Dagurinn var einstaklega vel heppnaður og þökkum við ykkur innilega fyrir komuna. Skólinn iðaði af lífi og erum við afar stolt af okkar nemendum og starfsfólki. Svona dagar lifa í minningunni um ókomna tíð og gefa skólalífinu ferskan blæ. Samvinna, sköpun og gleði einkenndi vinnuna og þökkum við fyrir frábæran dag. Hérna má sjá myndir frá opnu húsi í dag.