Frétt frá 1. og 2. bekk

1. og 2. bekkur
1. og 2. bekkur

Í síðustu viku fengum við jarðarbolta að gjöf frá Stjörnufræðivefnum  www.stjornufraedi.is og www.geimurinn.is og EU Universal Awareness fræðsluverkefninu.

Jarðarboltinn er uppblásið líkan af Jörðinni. Með honum er hægt að fræðast á auðskiljanlegan hátt um ýmislegt sem tengist stjörnufræði, jarðfræði, umhverfismálum, landafræði og mörgu fleiru.

Á jarðarboltanum eru engin örnefni og engin landamæri og birtist hann okkur því eins  og tunglfararnir sáu jörðina á leið sinni til tunglsins.

Við vorum mjög spennt í 1.-2. bekk að fá þennan fína bolta og erum búin að skoða hann og fara í einn leik með hann. Leikurinn er þannig að við stöndum í hring og sá sem kastar boltanum í næsta segir jörð, loft eða sjór þá á sá nemandi sem fær boltann að nefna dýrategund sem passar við.

Einnig erum við búin að fara inn á google earth og ferðast þar um alla sveitina. Við fundum öll heimilin okkar, skoðuðum skólann og í lokin máttu nemendur nefna hvaða stað sem er á jörðinni og fórum við þá þangað og skoðuðum. Einnig skoðuðum við þau lönd sem nokkrir nemendur eiga ættir að rekja til eins og Danmörk, England og Afríku.  Skemmtilegar umræður fylgdu í kjölfarið og vakti þetta almennt mikla lukku.