Gísli Súrsson á Twitter

Í næstu viku hefja nemendur í 9. og 10. bekk lestur á Gísla sögu Súrssonar. Samhliða lestrinum ætla nemendur að taka þátt í umræðum á samskiptamiðlinum Twitter. Fyrst um sinn leggur kennari til umræðuefni í viku hverri en þegar fram líða stundir fá nemendur það verkefni að búa til umræðuþráð sem aðrir nemendur svara svo. Skylda er að taka þátt í umræðum og verður framlag nemenda metið til einkunnar. Lögð er áhersla á að innlegg nemenda eru hvorki rétt né röng og allir hafa rétt á sínum skoðunum, eins eru nemendur hvattir til að koma með athugasemdir á innlegg samnemenda sinna.

Markmiðið með þessu verkefni er annars vegar að kynnast Twitter og skoða möguleika þessa miðils og hins vegar að æfa nemendur í að leggja mat á ákveðið viðfangsefni og skrá niðurstöður sínar í stuttu og hnitmiðuðu máli.

Fyrsti umræðuþráður er áætlaður í lok næstu viku, endilega finnið okkur á Twitter og fylgist með @gislasaga. Það verður spennandi að sjá hvernig gamla góða Gísla saga tekur sig út á veraldarvefnum.