Jóladagarnir okkar

Giljagaur og gáttaþefur kíktu í heimsókn til 1. og 2. bekkjar
Giljagaur og gáttaþefur kíktu í heimsókn til 1. og 2. bekkjar

Það var nóg um að vera í desember hjá okkur. Við föndruðum, skreyttum, gerðum jólahurðir, fórum á skauta, í bíó, skárum út laufabrauð, héldum litlu jólin og tendruðum ljós í hlíðinni fyrir ofan skólann.

Í Þelamerkurskóla eru fjölmargar hefðir og tengjast margar þeirra undirbúningi og aðdraganda jólanna. Þetta árið var engin undantekning önnur en sú að við þurftum að færa jólaljósadaginn okkar yfir á nýja árið sökum snjóleysis. Hérna eru myndir frá jólaljósadeginum okkar sem var haldinn fyrsta nemendadag ársins sem lenti á þrettándanum þetta árið. Það var því vel við hæfi að kveðja jólin með þessum hætti.

Litlu jólin voru afskaplega vel heppnuð. Nemendur og starfsfólk byrjuðu daginn á hátíðlegri stund í Möðruvallakirkju en þar tók Sr. Oddur Bjarni á móti okkur og stýrði fallegri stund. Nemendur komu fram, sungu, spiluðu á hljóðfæri og lásu upp texta. Eftir þessa stund fórum við öll upp í skóla þar sem nemendur áttu notalegan tíma saman í stofunum sínum áður en jólaballið fór fram. Jólasveinar kíktu í heimsókn og vöktu mikla lukku. Dagurinn endaði svo á hátíðarmat áður en nemendur og starfsfólk fóru í jólafrí. Hérna eru myndir frá þessum degi.

Laufabrauðsdagurinn gekk einnig mjög vel, þar skáru skólavinir saman laufabrauð og áttum nemendur og starfsfólk góðan tíma saman. Hérna eru myndir.

Jólaskautar eru stór partur af jólahefðinni okkar en þá fórum við öll saman á skauta og skelltum okkur svo í bíó í boði foreldrafélagsins eftir skautana. Virkilega vel heppnaður dagur í alla staði. Hérna eru nokkrar skautamyndir.