Þelamerkurskóli óskar öllum nemendum sínum, aðstandendum þeirra, starfsfólki skólans og öðrum velunnurum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári með bestu þökk fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Síðustu vikuna fyrir jólafrí var mikið um að vera í skólanum og með því að smella á myndir hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af starfinu þessa daga. 

Myndir

Myndirnar sýna frá eftirfarandi viðburðum:

Allir lesa - Nýr viðburður sem verður til staðar reglulega fram á vor. Allir innan skólans, nemendur og starfsfólk, finna sér lesefni að eigin vali og koma sér fyrir þar sem þeim hugnast best innan skólans. Í skólabyggingunni má þarmeð finna lesandi fólk, fullorðna og börn, á hverju svæði í um 20 mín. og má heyra saumnál detta þar sem allir eru niðursokknir í sitt lesefni. Nemendur njóta þess að sjá fullorðna lesandi fyrirmynd á hverju svæði og ekki þarf meira til að þeir komi sér fyrir og fari líka að lesa.

Söngsalur - Söngsalur var reglulegur viðburður í desember en þar komu allir nemendur saman og sungu undir stjórn Guðlaugs kórstjóra eða Siggu Huldu tónmenntakennara.

Jólaljósadagurinn - Nemendur og starfsfólk fara saman í hlíðina fyrir ofan skólann þar sem hver setur sitt friðarkerti í snjóinn og lýsir upp skammdegið á aðventunni.

Laufabrauðsdagurinn með sirkuslistum, tarzanleik og jólaföndri - Allir nemendur skera út laufabrauð, prófa sirkuslistir með Húlladúllunni og fara í Tarzan leik í íþróttahúsinu. Eftir hádegi velja þeir svo föndurstöð og búa til eitthvað fallegt jólaskraut.

Kósýdagurinn - Fjöldi stöðva í boði þar sem nemendur velja sér verkefni að vild. Hægt var að hanna og búa til farartæki úr endurunnum umbúðum, perla, byggja, forrita, spila, fá nudd og slökun, mála piparkökur, smíða og fleira og fleira.

Jólaskautar og jólabíó - Allir nemendur og starfsfólk fóru á skauta, gengur inn á Ráðhústorg og sungu við jólatréð. Eftir hádegið var boðið upp á jólabíó og popp.

Litlu jólin - Nemendur tónlistarskólans héldu fyrir okkur jólatónleika undir stjórn sinna kennara, farið var í Möðruvallakirkju hvar boðið var upp á upplestur, fagran söng og hugvekju. Eftir stofujól með kennurum nutu þess allir að borða saman hátíðarmat í mötuneytinu og deginum lauk með jólaballi þar sem góðir gestir komu í heimsókn við mikinn fögnuð yngstu nemendanna.