Jólamarkaður í stað jólaföndurs

Kerti sem verða til sölu á markaðnum
Kerti sem verða til sölu á markaðnum

Nemendur og starfsfólk Þelmerkurskóla hafa notað smiðjutímana undanfarnar fjórar vikur til að undirbúa jólamarkað í skólanum. Markaðurinn verður 27. nóv. kl. 15-17. 

Jólamarkaður skólans kemur í stað hefðbundins jólaföndurdags. Á markaðnum verður hægt að kaupa jólagjafir, kökur og jólanammi sem nemendur hafa búið til. Einnig verður hægt að kaupa skreytingaefni úr skóginum og kíkja í kaffihúsastemmningu í mötuneytinu. Allar vörur markaðarins verða seldar á vægu verði. 

Í morgun fundaði undirbúningshópur markaðarins. Í hópnum eru auk skólastjórnenda, Alexander Anton fulltrúi 7. bekkjar, Bjarni Ísak fulltrúi 8. bekkjar, Kara Hildur fulltrúi 9. bekkjar og Kristín Ellý fulltrúi 10. bekkjar. Á fundinum var m.a. ákveðið að ágóðinn af markaðnum rynni allur til Unicef til styrktar skólastarfi í neyðaraðstæðum. Einnig var ákveðið að á næsta fundi myndi hópurinn búa til viðburð á Facebook fyrir markaðinn og setja þangað inn upplýsingar og myndir af undirbúningi. 

Allir eru hvattir til að taka frá tímann milli kl. 15-17 þann 27. nóv. og koma á jólamarkað Þelamerkurskóla til að eiga notalega stund og styrkja jafnframt gott málefni.