- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Flestir hlutirnir og góðgætið sem verða til sölu á jólamarkaðnum er nú komið í umbúðir og búið að verðmerkja mest af því. Jólakortin sem nemendur úr 1. og 2. bekk teiknuðu eru í þessum rituðu orðum í prentvélum inni á Akureyri og verða seld glóðvolg á föstudaginn.
Í stofunni hjá Huldu og 5. og 6. bekk er ilmur af greni og könglum. Og á síðasta mánudag ilmaði skólinn af rjómakaramellum. Á morgun mun hann ilma af brjóstsykri því þá ætlar Berglind að taka á móti nemendum í heimilisfræðistofinni og búa til brjóstsykur með þeim. Svo er miklu meira til af alls kyns föndri og góðgæti sem hafa orðið til á undanförnum vikum. Verðinu á öllu er stillt í hóf og verður allri innkomunni varið til að styrkja skólastarf fyrir börn í neyðaraðstæðum.
Í dag fóru nemendur úr undirbúningshópi markaðarins á milli námshópa skólans og kynntu verkefnið sem styrkt verður en það heitir Skóli í kassa og er á vegum UNICEF. Í kassanum er námsgögn fyrir 40 nemendur og er markmið Þelamerkurskóla að selja afurðir nemenda á markaðnum fyrir að minnsta kosti tveimur kössum svo takist að styrkja jafnmörg börn í skóla og stunda nám í Þelamerkurskóla. Ef þú smellir hérna getur þú lesið um skólastarf í neyðaraðstæðum hjá UNICEF.
Á Facebook síðu skólans hefur undirbúningshópurinn stofnað viðburð og þar er hægt að skoða myndir frá undirbúningnum og einnig koma þangað inn myndir af söluvarningnum þegar nær dregur markaðsdeginum.
Við hlökkum til að sjá sem flesta af velunnurum skólans á markaðnum okkar.