- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Þeir sem komu að afmælishátíð skólans í gær eru sammála um að dagurinn hafi verið skemmtilegur og sérlega eftirminnilegur. Uppúr stendur hve krakkarnir í skólanum stóðu sig vel í alla staði og einnig hve margir gestir heimsóttu skólann.
Dagurinn byrjaði á því að Óli og Silla í eldhúsinu buðu uppá hátíðarmorgunmat: kókópuffs, nýbakaðar kringlur, kakó með rjóma og piparkökur. Síðan var hátíðarstund á sal þar sem elstu og yngstu nemendur skólans spiluðu Blokklingana saman á blokkflautur undir stjórn Maju tónmenntakennara. Þrír krakkar úr 7. bekk lásu upp ágrip af sögu skólans og Barnakór Þelamerkurskóla söng skólasönginn við nýtt lag Jan Alavere en textinn er eftir Arnstein Stefánsson frá Stóra Dunhaga. Einnig var nýtt skólamerki formlega kynnt. En það gerði Dagný Reykjalín grafískur hönnuður.
Eftir hátíðarstundina var boðið upp á opnar stofur þar sem gestir og gangandi gátu kynnt sér starfið og kíkt í smiðjur til nemenda en þeir gátu valið á milli fjögurra mismunandi smiðja þennan dag. Elstu nemendur skólans héldu Café Þeló opnu með veitingum, kaffi quiz, tónlistaratriðum, leiðsögn um skólann og spilakennslu.