- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Við byrjuðum nýja árið af krafti og prófuðum okkur áfram í leiðsagnarnáminu. Einn liður leiðsagnarnáms er að útbúa námsvegg. Námsveggir gera viðfangsefnin og orðaforða í hverri námsgrein sýnileg. Þessa vikuna hafa nemendur á unglingastigi verið að vinna að spennandi verkefni í dönskutímum. Nemendur hafa verið að búa til námsvegg með orðaforða sem tengist vikudögum, og útkoman er bæði skemmtileg og lærdómsrík.
Nemendur unnu saman í pörum og fengu það verkefni að skrifa vikudagana bæði á dönsku og íslensku. Verkefnið var ekki einungis bundið við orðin sjálf, heldur fengu nemendur einnig að nota sköpunarkraftinn og myndskreyta hvern dag með því sem þeim fannst einkenna viðkomandi vikudag.
Það sem gerir verkefnið sérlega áhugavert er að námsveggurinn er lifandi verkefni sem má stöðugt bæta við. Með þessum hætti geta nemendur fylgst með því hvernig orðaforði þeirra í dönsku eykst og dafnar með tímanum.
Það var gaman að sjá mismunandi hugmyndir nemenda um hvað einkennir hvern vikudag. Sumir tengdu mánudaga við fisk og að þurfa að vakna snemma, á meðan aðrir sáu mánudag sem ný tækifæri fyrir nýja viku. Einhverjir nemendur tengdu vikudagana við íþróttir og tómstundir. Verkefnið hefur ekki aðeins hjálpað nemendum að læra vikudagana á dönsku, heldur einnig skapað skemmtilegar umræður um daglegt líf og venjur. Hérna eru nokkrar myndir.