Skólaakstur næstu daga

Veðurspá er ekki góð fyrir næstu daga og því óljóst hvort skólabílar geti farið af stað á morgnana. Eins og fram kemur í viðbragðsáætlun skólans vegna óveðurs og ófærðar þá er skólahverfi  Þelamerkurskóla mjög víðfermt og aðstæður misjafnar. Foreldrar þurfa undir öllum kringumstæðum að meta það hvort barn eigi erindi í skólann jafnvel þótt enginn tilkynning hafi borist um niðurfellingu skólahalds.  Foreldrar tilkynna skólanum og skólabílstjóra um forföll vegna veðurs og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll.  Í allri tvísýnu skal öryggi barnsins njóta vafans.

Ef útlit er tvísýnt og veður vond taka skólayfirvöld í samráði við bílstjóra og íbúa á jaðarsvæðum ákvörðun um að skólahald falli niður. Stefnt skal að því að ákvörðun um niðurfellingu skólaaksturs liggi fyrir kl. 7.00 á morgnana. Ef skólahaldi er aflýst er frétt um niðurfellingu skólaaksturs sett á heimasíðu skólans. Einnig er sendur tölvupóstur á Ríkisútvarpið og Bylgjuna.