- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Þelamerkurskóla var slitið fimmtudaginn 4. júní. Skólaslit 1. - 6. bekkjar fóru fram á sparkvelli skólans en skólaslit 7. - 10. bekkjar í Hlíðarbæ seinna sama dag. Sjö nemendur 10. bekkjar voru brautskráðir og sex nemendur 1. bekkjar voru boðnir velkomnir í skólann. Á fyrri skólaslitunum voru veitt tvenn verðlaun. Það voru verðlaun fyrir hönnun og smíðar og sólskinsverðlaun skólans.
Verðlaun í hönnun og smíðum komu í hlut Ylfu Sólar Agnarsdóttur sem er nemandi í 3. bekk. Verðlaunin hlaut Ylfa Sól fyrir framúrskarandi árangur í hönnun og smíðum og mikla verkhæfni miðað við aldur.
Á fyrri skólaslitunun voru sólskinsverðlaunum Þelamerkurskóla einnig afhent en þau eru veitt nemendum sem leggja sig sérstaklega fram, skólastarfinu til hagsbóta. Sólskinsverðlaunin 2019-2020 hlýtur nemandi sem ávallt sýnir mikla jákvæðni og er einstaklega samvinnufús og hjálpsamur. Þessi viðurkenning kom í hlut Elínar Öldu Bragadóttur 6. bekk.
Á seinni skólaslitunum sem haldin voru í Hlíðarbæ voru veitt fern verðlaun. Fyrst voru það Jónasarverðlaunin sem Jónasarsetur, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal veitir útskrifarnemendum viðurkenningu í minningu Jónasar Hallgrímssonar. Í ár var mjög erfitt að gera upp á milli nemenda og gátu mjög margir fengið verðlaun fyrir námsárangur. Að lokum stóð valið á milli tveggja framúrskarandi nemenda sem ekki var hægt að gera upp á milli núna frekar en áður á skólagöngu þeirra. Þessir tveir nemendur eru alltaf tilbúnir til að taka þátt í þeim verkefnum sem fyrir þá eru lögð, gera það með bros á vör og skila oftast mjög góðu verki. Þetta eru þær Álfhildur Helga Ingólfsdóttir og Bjarney Viðja Vignisdóttir nemendur í 10. bekk.
Viðurkenningu fyrir hannyrðir hlaut Auður Karen Auðbjörnsdóttir í 9. bekk. Auði hefur farið mikið fram í vetur og er hún mjög sjálfstæð í vinnu sinni. Hún er vandvirk, hugmyndarík og óhrædd við að prufa nýjar aðferðir.
Ástundunarverðlaun skólans kom í hlut Ólafar Eyrúnar Bragadóttir í 10. bekk. Ólöf hefur sinnt náminu af mikilli prýði í vetur og hefur sýnt einstakan áhuga og þrautseigju.
Að lokum var íþróttamaður Þelamerkurskóla tilnefndur. Í ræðu skólastjóra kom fram að skólinn er ríkur af öflugu íþróttafólki en fyrir valinu í ár varð nemandi sem er mikill íþróttamaður. Hann leggur sig fram í tímum, tilbúinn að hjálpa öðrum og er flottur liðsmaður. Hann er mikill keppnismaður og gefur sjaldan eftir. Íþróttamaður Þelamerkurskóla skólaárið 2019 - 2020 er Jónsteinn Helgi Þórsson nemandi í 10. bekk.
Þrír kennarar voru kvaddir á skólaslitunum.
Ágústa Berglind Hauksdóttir, sem verið hefur í leyfi í vetur og óskaði eftir lausn frá starfi. Við þökkum henni fyrir vel unnin störf og skemmtilegan félagsskap til margra ára.
Jónína Sverrisdóttir er búin að starfa í Þelamerkurskóla í 20 ár. Hún hefur nú ákveðið að komið sé að tímamótum og mun nú snúa til annarra starfa. Jónínu eru færðar hjartans þakkir fyrir frábær störf í þágu nemenda og skólans alls öll þessi ár.
Sigurður F. Sigurðarson kom til okkar í haust í afleysingu og átti góðar stundir og vann flott og hugmyndaríkt starf með unglingadeildinni. Við þökkum Bibba kærlega fyrir hans framlag í vetur.
Tveir nýir kennarar hefja störf við skólann í ágúst, en það eru þau Hjördís Stefánsdóttir, sem fer í teymi yngsta stigs og Helga Kolbeinsdóttir sem mun sjá um list- og verkgreinakennslu við skólann. Við bjóðum þær tvær velkomnar til starfa, en Helga er kominn inn í hópinn eftir að hafa verið hjá okkur í afleysingu í vetur.
Þelamerkurskóli verður settur þann 24. ágúst 2020.
Hér eru myndir sem teknar voru á vorhátíðinni og skólaslitunum og hér er skóladagatal skólaársins 2020-2021