Sveitafélagið okkar

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 7.-10. bekk unnið verkefni um sveitarfélagið sitt Hörgársveit. Vinna við verkefnið hefur gengið vel og er hópurinn mjög áhugasamur. Nemendur hafa komið með hugmyndir um hvernig bæta megi skipulag sveitafélagsins til að gera það að betra og skemmtilegra samfélagi. Þó vissulega séu margar hugmyndir af breytingum er ýmislegt sem nemendur vilja hafa óbreytt. Hugmyndir eru uppi um að breyta annaðhvort Hjalteyri eða Möðruvöllum í þéttbýliskjarna, gera skíðaðastöðu í Þverbrekkufjalli, búa til sumarbústaðarhverfi, fjölga gönguleiðum og margt fleira.

Nemendur hafa líka skoðað þróun mannfjölda í sveitarfélaginu undanfarin ár og velt því fyrir sér hvernig framtíðin lítur út, hvort stuðla eigi að fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og þá hvernig. Til gamans leituðu nemendur svo uppi þjóðsögur sem hafa átt að gerast hérna í sveitinni.

Eins og áður segir hefur vinna gengið vel og hafa nemendur sýnt verkefninu mikinn áhuga. Ýmislegt hefur komið á óvart og nefna nemendur þá sérstaklega þá staðreynd að fækkað hefur í sveitarfélaginu undanfarin ár.

Í næstu viku mun 9.og 10. bekkur kynna afrakstur sinn og í vikunni þar á eftir mun 7.og 8. bekkur kynna sín verkefni. Það verður spennandi að sjá útkomuna og verður fróðlegt að fylgjast með í framtíðinni komist þessir snillingar einhverntíma til valda í sveitarfélaginu. 

Hér eru myndir sem fylgdu þessari frétt.