Máni og Benedikt
Nú er janúar, fyrsti mánuður ársins, genginn í garð. Hann hófst með nýársdegi sem til forna var stundum kallaður
áttidagur en það þýðir einfaldlega að hann er áttundi dagur jóla. Janúarmánuður heitir eftir Janusi, rómverskum guði,
sem var sérstakur fyrir þá sök að hann hafði tvö andlit. Sneri annað fram og hitt aftur en það er hagnýtt fyrir heimilisguð og
vísar til þess að hann sér um heima alla og ekkert kemur honum á óvart. Hann táknar þannig upphaf og endi alls, nútíð,
fortíð og framtíð. Janus gætti dyra á híbýlum fólks og af nafni hans er enska orðið „janitor“ dregið eða
dyravörður.
Þann 6. janúar er þrettándinn en þá er síðasti dagur jóla. Síðasti jólasveinninn fer þá aftur til fjalla eins
og eftirfarandi vísubrot eftir Jóhannes úr Kötlum ber vott um:
Svo tíndust þeir í burtu,
- það tók þá frost og snjór.
Á Þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.
Margt skemmtilegt er um að vera á þrettándanum. Þann dag eiga kýr að geta talað mannamál og álfar fara á kreik. Fólk
kveður gjarnan jólin með því að safnast saman við þrettándabrennur, skýtur upp flugeldum og syngur. Álfar, huldufólk og jafnvel
tröll sjást á sveimi. Einnig má stundum rekast á einn og einn jólasvein sem ekki hefur skilað sér aftur upp til fjalla.
Mikinn merkisdag ber upp á 25. janúar en þá hefst þorri.
Þorri er gamalt
mánaðarheiti en samkvæmt forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Nú á dögum könnumst við við
þetta heiti úr hugtökum eins og þorramatur og þorrablót. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er
stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér eða að komast í gegnum hann, þola
tímabundna erfiðleika. Fyrsti dagur þorra nefnist
bóndadagur og einmitt þann dag er
miður vetur. Í bókinni
Komdu og
skoðaðu íslenska þjóðhætti má lesa um líf fólks á Íslandi fyrr á tímum, hvað það
gerði á þorranum og hvernig árinu var skipt í mánuði eftir gangi tunglsins. Það getur líka verið fróðlegt að lesa
um
gamlar vinnslu- og matreiðsluaðferðir sem tíðkuðust gjarnan fyrr
á tímum. Á þorranum er gott tilefni til að syngja kvæðið góða eftir Kristján Jónsson fjallaskáld,
Þorraþrælinn 1866.
(Heimild: Vefur Námsgagnastofnunnar)
Athugið: Kveikt verður í nýársbrennu Umf. Smárans næstkomandi laugardagskvöld kl. 20.00 í malarkrúsunum
norðan við Laugaland. Eftir brennuna verður spilað bingó í Þelamerkurskóla. Nemendur fimmta og sjötta bekkjar skólans selja kaffi og
kökur til fjáröflunar fyrir Reykjaferð.