Út um víðan völl á lokasprettinum

Undanfarið hafa nemendur okkar verið á faraldsfæti og fengið að kynnast fleiru en hefðbundnu skólastarfi. Elstu nemendur skólans hafa verið í skólaferðalagi og 10. bekkur er þessa vikuna í starfskynningum á meðan 7.-9. bekkur starfar á útiskólasvæðinu. Á morgun, föstudaginn 29. maí, er svo umhverfisdagur skólans, þá vinna nemendur margs konar verkefni utandyra. Umhverfisdagurinn er skólavinadagur. Munið að koma klædd eftir veðri. 

Í næstu viku er einnig óhefðbundin vika. Mánudaginn 1. júní eru Þelamerkurleikarnir. Þá keppa nemendur sín á milli bæði í óhefðbundnum og hefðbundnum íþróttagreinum eins og hreystigreip, langstökki, spretthlaupi, Sudoku, skák og stígvélakasti. Eftir hádegið verður sund- og rennibrautakeppni. Þátttaka í þeim eru valfrjáls þannig að þeir sem ætla að taka þátt í þessum keppnisgreinum þurfa að muna eftir sundfötunum.

Þriðjudaginn 2. júní halda allir nemendur skólans og starfsmenn í vettvangsferð til Húsavíkur. Lagt verður af stað frá skólanum kl. 8:40 en áður hafa nemendur fengið morgunmat. Á leiðinni verður komið við á Samgönguminjasafninu á Ystafelli og á Hveravöllum. Síðan verður farið á tvö söfn á Húsavík, grillað og haldið heim á leið rúmlega 14:30. Á heimleiðinni munu þeir nemendur sem heimsóttu Ystafell á leiðinni á Húsavík fara að Hvervöllum og þeir sem ekki fóru á Hveravelli fara á Ystafell. Reiknað er með því að rúturnar haldi heim á leið um kl. 16:00 svo nemendur verða ekki heima hjá sér fyrr en milli kl. 17:00 og 18:00. 

Síðasti skóladagurinn eða vorhátíð skólans verður miðvikudaginn 3. júní. Dagskrá þessa dags er með hefðbundnu sniði. Dagskráin byrjar niðri í íþróttahúsi kl. 9:00 og þar verða hreyfistöðvar sem Inga íþróttakennari skipuleggur. Kl. 9:40 verða verðlaunin fyrir Þelamerkurleikana afhent. Síðan lýkur dagskránni með leik sem allir, nemendur, starfsmenn og foreldrar geta tekið þátt í. Klukkan 10:00 geta þeir farið í sund sem vilja. Frá klukkan 11:00 verður hægt að fá grillaðar pylsur uppi við skóla. Vegna kuldans verður notalegra að fá pylsubrauðin sín volg og afgreidd inni í mötuneyti. Heimferð þennan dag er kl. 12:30. Vonumst til að sjá sem flesta. 

Fimmtudaginn 4. júní verður starfsdagur í skólanum og klukkan 16:00 þann dag verða skólaslit í Hlíðarbæ.