- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Hinn árlegi útivistardagur var þriðjudaginn sl. þar sem nemendur og starfsfólk fóru í fjórar mismunandi ferðir. Níu galvaskir nemendur úr 5.-8. bekk lögðu leið sína á hjólum frá Melum í Hörgárdal að Baugaseli í Barkárdal og aftur til baka sem var um 23 km leið. Ferðin var krefjandi á köflum en seiglan skilaði hópnum á leiðarenda. Stór hópur nemenda úr 1.-10. bekk gengu frá Féeggstöðum í Baugasel og langleiðina að Bugi til baka. Þau nutu veðurblíðunnar og náttúrufegurðarinnar í góðum félagsskap. Allstór hópur skellti sér í útreiðartúr frá Þrastarhóli en í þá ferð komust einungis þeir nemendur sem höfðu reynslu af hestamennsku og gátu útvegað sér hest. Þau komu öll skælbrosandi og endurnærð úr þeirri ferð. Fimm hraustir nemendur skelltu sér svo alla leið upp á Súlur, ferðin tók á og var mjög krefjandi um tíma en mikill sigur að komast alla leið. Nemendur tóku með sér nesti og fengu grillaðar pylsur. Við heimkomu í skólann var smá kaffi- og leiktími fyrir heimferð. Virkilega góður dagur sem gekk í alla staði vel.