- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Veðurblíðan í lok ágúst var nýtt til að fara í fjölbreytta útivist með öllum nemendum skólans. Nemendur í 1.-4. bekk ásamt eldri nemendum sem þess óskuðu, fóru á Hjalteyri hvar byrjað var á hressilegum göngutúr í kringum tjörnina. Því næst var nestisstund og leikir. Fjaran tók síðan vel á móti krökkunum sem nutu þess að busla og vaða, moka og skapa skúlptúra. Að lokum fengu svo allir grillaðar pylsur og safa. Myndirnar tala sínu máli! Hópur nemenda úr 5.-10. bekk valdi að fara í hjólaferð og hjólaði hópurinn alla leið frá Melum og að Hlíðarbæ. Á Möðruvöllum var tekið matarhlé og kveikt upp í grillinu. Hópurinn stóð sig afar vel í krefjandi ferð, enda um 26 km leið að ræða. Geri aðrir betur! Nokkrir fjallagarpar gengu á Dunhagahnúk með íþróttakennurum skólans og fengu að sjálfsögðu frábært útsýni í blíðunni. Hörku duglegir krakkar. Að venju fengu svo vanir, sjálfstæðir knapar með eigin hest að fara í útreiðartúr með knöpum úr hópi starfsfólks. Þau skemmtu sér konunglega í góðri ferð hvar þau riðu frá Þrastarhóli og alla leið niður að sjó, sunnan við Ós, og svo heim aftur. Þar var að sjálfsögðu líka grillpartý. Þegar komið var heim í skóla var svo öllum boðið í sund. Frábær dagur í alla staði með mögnuðum krökkum.
Frétt frá nemendum um útivistardaginn (bætt við síðar)
30. ágúst 2022 var haldinn útivistardagur í Þelamerkurskóla. Nemendur máttu velja um nokkrar ferðir og 12 nemendur úr 5.-10. bekk völdu að fara í hjólaferð. Kennararnir sem fóru með okkur voru Hulda Arnsteins, Helga Kolbeins og Varvara. Við lögðum af stað frá Melum og hjóluðum alla leið til Hlíðarbæjar, það voru tæplega 23 km. Það var sól allan tíman og veðrið var gott. Það var stoppað oft til að tína bláber og hvíla sig því þetta var svolítið krefjandi. Við stoppuðum á Möðruvöllum til að grilla pylsur. Eftir að við vorum búin að fá pylsurnar lögðum við af stað aftur. Það var mikill mótvindur og við stoppuðum einu sinni á Dagverðareyri, allir komust svo á leiðarenda í Hlíðarbæ.
Gönguferðin var ein af nokkrum ferðum sem 5. til 10. bekkur gat valið á milli á útivistardaginn, sex nemendur völdu þessa ferð og það voru einungis nemendur úr 9. og 10. bekk. Kennarar sem fóru með þessum sex krökkum voru Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Inga Sigrún Matthíasdóttir. Þau ætluðu sér upp á topp en þeim fannst of bratt og fóru eins langt og þau treystu sér. Á leiðinni sáu þau fallegan foss og stoppuðu og skoðaðu hann. Þau fengu frábært veður og var um 22 stiga hiti. Þegar þau voru búin fóru þau aftur heim í skóla og borðuðu grillaðar pylsur.
Hestaferð var ein af ferðum sem boðið var upp á. Starfsfólkið sem kom með okkur í hana voru þær Ólöf Harpa og Sigga Hrefna. Einnig var eitt foreldri sem kom með okkur og það var hann Axel Grettisson. Við byrjuðum á Þrastarhóli og riðum niður í ósinn við Hörgárósa. Það komu allir með sinn eigin hest nema einn nemandi hann fékk lánaðan hest á Þrastarhóli. Það gekk mjög vel fengum æðislegt veður og allir voru ánægðir. Ólöf Harpa datt af baki en það komu allir öruggir heim og við enduðum á að grilla pylsur á Þrastarhóli.