- Fréttir
- Skólinn
- Nemendur
- Sérstaða
- Þróunarverkefni
- Samstarf
- - Fótur: Tilkynningar
Ungmennaþing SSNE fór fram á Dalvík dagana 13.-14 október síðastliðinn. Þingið var að þessu sinni haldið í menningarhúsinu Berg á Dalvík og var þar samankomin hópur ungmenna úr sveitarfélögum landshlutans, ásamt starfsmönnum sveitarfélaga. Lilja Lind Torfadóttir, Valgerður Telma Einarsdóttir og Arnsteinn Ýmir Hjaltason tók þátt fyrir hönd Hörgársveitar. Þetta er í þriðja sinn sem Ungmennaþing er haldið í landshlutanum en verkefnið er eitt af áhersluverkefnum SSNE árið 2022.
Starfsmenn SSNE sáu um skipulag og framkvæmd þingsins. Dagskrá þingsins var fjölbreytt en þemað að þessu sinni var frumkvöðlahugsun, fullnýting auðlinda og nýsköpun. EIMUR sá um fræðslu og dagskrá í góðri samvinnu við starfsmenn SSNE.
Unnið var með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 9, 11, 12 og 13 en markmið þingsins var einnig að valdefla ungmennin, fá raddir þeirra í Sóknaráætlun og fá þau til að kynnast ungmennum úr öðrum sveitarfélögum. Spurningin sem ungmennin unnu hvað mest með var einföld en samt nokkuð flókin: Hvernig gerum við Norðurland eystra að besta stað á Íslandi til að búa á?
Þá fengu þátttakendur innblástur frá Svövu Björk Ólafsdóttir hjá RATA ráðgjöf og fengu þau innsýn í það hvernig er að vera frumkvöðlar. Ungmennunum var svo skipt niður í hópa og bjuggu þau saman til fyrirtæki, lærðu um og fylltu inn í viðskiptamódel Canvas og héldu kraftmiklar kynningar. Dregin var upp mynd af því sem betur mætti fara og einnig því sem er vel gert og sköpuðust því líflegar umræður og höfðu ungmennin margt til málanna að leggja.
Á þinginu var einnig unnið var með forritið MENTI þar sem ungmennin svöruðu fjölbreyttum spurningum sem tengdust málefnum þingsins og hafa starfsmenn SSNE talsvert efni til að vinna með. Niðurstöður ungmennaþingsins verða teknar saman af starfsmönnum og afhentar stjórn SSNE til að það nýtist í vinnu Sóknaráætlunar á komandi árum.
Við þökkum Dalvíkingum fyrir góðar móttökur. Framtíðin er björt með þetta flotta unga fólk í fararbroddi í landshlutanum.