Síðasta vika skólaársins

Frá útikennslu gærdagsins
Frá útikennslu gærdagsins

Í Þelamerkurskóla erum við svo heppin að hafa hefð fyrir óhefbundu skólastarfi þegar líða fer að lokum skólaársins. Má í því sambandi nefnda bændadaginn (13. maí), starfsnám og útikennslu elstu nemenda í síðustu viku og í þessari viku vinna allir nemendur, þvert á skólastig, að ýmsum verkefnum sem styðja við áherslur skólans og það sem við að öllu jöfnu nefnum hefðbundið skólastarf. 

Í gær var útikennsludagur þar sem öllum umsjónarkennurum var uppálagt að vera úti með nemendum sínum. Frétt af þessum degi og myndir er hægt að skoða með því að smella hér

Í dag er jafnréttisdagurinn þar sem nemendur fá fræðslu, ræða í hópum um jafnrétti í ýmsum myndum og fá að reyna á eigin skinni hvernig það er að komast um skólann og umhverfi hans í hjólastól, á hækjum, blindur eða án heyrnar. Hér er sýnishorn af ramma og skipulagi dagsins. Hér eru myndir sem teknar voru á þessum degi.

Á morgun, 28. maí, er okkar hefðbundni umhverfisdagur. Á þeim degi vinna nemendur í aldursblönduðum hópum að verkefnum sem snúa að umhverfsvernd og endurnýtingu. Í ár fá nemendur verkefni í eðlisfræði og endurnýtingu, fara í ljósmyndamaraþon, tína rusl, setja niður kartöflur og sá fyrir grænmeti ásamt því að reita frá þeim plöntum sem nemendur hafa sett niður á undanförnum árum. Hér eru hópaskiptingar og skipulag dagsins. 

Föstudaginn 30. maí eru hinir árvissu Þelamerkurleikar. Á þeim degi reyna nemendur með sér í íþróttagreinum eins og spretthlaupi, langstökki, hreystigripi, bolta- og stígvélakasti. Eftir hádegið verður sund og meðal annars keppt í skriðsundi og bringusundi. Þennan dag fá nemendur 9.-10. bekkjar tækifæri til að sækja Háskóla unga fólksins. Hægt er að lesa um það með því að smella hér

Mánudaginn 2. júní er vorhátíð skólans. Þá er foreldrum og öðrum velunnurum skólans boðið að vera með okkur í dagskrá niðri í íþróttahúsi, í Jónasarlaug, taka þátt í eða að horfa á fótboltaleik og skemmta sér með okkur og borða grillaðar pylsur úti í Mörk. Ef þú smellir hér getur þú skoðað dagskrá vorhátíðarinnar.

Þriðjudaginn 3. júní er starfsdagur í skólanum og síðan skólaslit kl. 16:00 í Hlíðarbæ. Þau verða með hefðbundnu sniði og reiknað með að þeim sé lokið kl. 17:00. 

Eins og sjá má á þessari upptalningu þá er hvergi slegið slöku við í starfi og námi í Þelamerkurskóla þó langt sé liðið á skólaárið. Óhefðbundið skólastarf og óformleg samvera styðja vel við einkunnarorð skólans, þroski, menntun og samkennd og styrkja jafnframt áherslur Þelamerkurskóla í verkefnunum Heilsueflandi skóli, Olweusáætluninni og Grænfánanum.