18.12.2020
Þelamerkurskóli óskar nemendur, foreldrum, starfsfólki og samstarfsaðilum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári, með kæru þakklæti fyrir gott samstarf á árinu sem senn er á enda. Megi nýtt ár færa okkur öllum gleði, frið og takmarkalausa samveru.
Lesa meira
18.12.2020
Litlu jólin eru haldin hátíðleg í Þelamerkurskóla ár hvert með fjölbreyttri dagskrá. Í Möðruvallarkirkju áttum við í dag notalega stund þar sem tónlist var í aðalhlutverki en barnakór skólans söng undurfallega auk þess sem hljóðfæraleikarar úr hópi nemenda léku listir sínar. Heima í skóla var sungið við jólatréð og nemendur héldu svo stofujól með kennurum sínum. Dagurinn endaði svo eins og hefð er fyrir, með hátíðarmat úr smiðju kokksins, kalkún og meðlæti og að sjálfsögðu ís í eftirmat. Yndislegur dagur með sérlega fallegum börnum.
Lesa meira
18.12.2020
Fimmtudaginn 17. desember áttum við skemmtilegan dag með löngu nafni! Nemendur fóru á milli stöðva ýmist á útisvæðum eða í íþróttahúsi og þeir sem vildu fóru í sund og yljuðu sér innan um fallegu jólaljósin sem prýða sundlaugina okkar. Úti í Mörk voru það vasaljós, höfuðljós og glitstangir sem lýstu upp myrkrið og í eldstæðinu okkar logaði eldurinn sem hitaði upp vatnið í heita kakóið. Nemendur grilluðu sykurpúða og gæddu sér á piparkökum með kakóinu. Hangikjötið hennar Huldu hékk á sínum stað og stemmingin var einstök. Á skólalóðinni stjórnaði Ragna íþróttakennari jólaratleik þar sem nemendur leituðu vísbendinga og bjuggu til orð og í íþróttahúsinu spiluðu nemendur bandý og kubb undir dyggri stjórn Siggu og Guðrúnar. Eftir hádegismat var boðið upp á úrval af jólabíómyndum og að sjálfsögðu fengu allir popp frá yfirpoppurum skólans, Unnari og Óla. Notalegur og skemmtilegur dagur.
Lesa meira
18.12.2020
Miðvikudaginn 16. desember var laufabrauðs- og smiðjudagur hjá okkur. Þann dag skáru allir nemendur út laufabrauð til að hafa á borðum með hátíðarmatnum á Litlu jólunum. Nemendur úr elsta hópnum aðstoðuðu Huldu yfirsteikingarmeistara við að steikja og pressa. Auk laufabrauðsskurðar fóru nemendur í leiki í íþróttahúsinu, spiluðu og bjuggu til jólaföndur. Ljúfur og góður dagur.
Lesa meira
15.12.2020
Tíminn flýgur á ljóshraða og það sem eftir lifir vikunnar eru jóladagarnir okkar með fjölbreyttu en þó svolítið hefðbundnu sniði. Hér að neðan er yfirlit yfir þessa daga og við hvetjum ykkur til að fara yfir skipulag þeirra með krökkunum, sér í lagi þeim sem finnst gott að vita vel fyrirfram hvað til stendur. Við gerum það að sjálfsögðu líka hér í skólanum.
Miðvikudagur 16. desember. - Jólakósýdagur - laufabrauð og smiðjur
Þennan dag verður ýmislegt í boði. Nemendur skera laufabrauð og fara síðan í allskonar skemmtilegar stöðvar eins og t.d spilastöð, föndurstöð og fl. Heimferð þennan dag er á „venjulegum tíma“ kl. 13.30.
Fimmtudagur 17. desember. ´- Vasaljósaútistöðvabíópoppdagurinn -
Þennan dag höfum við venjulega farið á skauta en það var ekki hægt að þessu sinni. Í þess stað verðum við hér í skólanum og reynum að vera eins mikið úti og við mögulega getum. Vonandi verður veðrið okkur hliðhollt. Mikilvægt að tryggja hlý og góð útiföt, og sundföt.
Nemendur verða í útistöðvum frá kl. 9.00 - 11.00. Þessar stöðvar eru útivera í Mörkinni, nemendur fara ratleik, og síðan er bandý og kubb á skólalóðinni. Einnig geta nemendur farið í sund og mun sundlaugin opna kl. 10.15. Eftir hádegismat verður síðan jóla- poppbíó þar sem nemendur horfa á jólamynd og borða popp og drekka sódavatn með, ef þeir vilja.
Heimferð er kl.13.30.
Föstudagur 18. desember. - Litlu jólin. Spariföt
Kl. 8.20 - 8.40 - Heimastofa, fara yfir dagskrá dagsins.
Kl. 8.40 - 9.00 - Morgunmatur
Kl. 9.10 - Brottför í jólastund með Oddi Bjarna á Möðruvöllum. Skólavinir sitja saman, bæði í skólabílum og í kirkjunni.
Kl. 10.10 - Kósýstund og söngur hjá jólatrénu okkar.
Kl. 10.40 -11.15 - Stofujól
Kl. 11.15 - 11.45 - Hátíðarmatur við dekkað borð í matsal.
Kl. 12.00 - Heimferð og nemendur komnir í jólafrí.
Lesa meira
09.12.2020
Ein hátíðlegasta hefð skólans er jólaljósadagurinn. Þá arka allir nemendur upp í hlíðina fyrir ofan skólann og kveikja þar á útikerti til þess að fagna komu jólanna. Það er ekkert hátíðlegra en að sjá jólaljósin lýsa upp snævi þakta hlíðina. Svo er alltaf gott að fá birtu í lífið og tilveruna, nú þegar sólargangur styttist með hverjum deginum. Þegar búið var að kveikja á kertunum fóru nemendur niður að skóla og gengu kringum stóra jólatréð sem er staðsett við skólann. Birgitta á Möðruvöllum mætti með drónann sinn og tók fallegar loftmyndir af skólasvæðinu. Við þökkum henni kærlega fyrir það. Einnig viljum við nota þetta tækifæri og þakka lögreglunni á Akureyri fyrir aðstoðina við að auka öryggi nemenda okkar þegar við fórum með þau yfir þjóðveginn.
Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru í dag.
Lesa meira
23.11.2020
Eins og hefð er fyrir í lok nóvember voru jólatré skólans sótt upp í skógræktina fyrir ofan skólann. Þetta er hlutverk 1. og 2. bekkinga sem sækja litla tréð sem dansað er í kringum á litlu jólunum og síðan 8. bekkinga sem sækja stóra jólatréð sem sett er upp á skólalóðinni. Oft hefur þetta verið töluverð erfiðisvinna vegna snjóalaga en ekki að þessu sinni því jörð var nánast auð.
Hér eru myndir sem teknar voru þegar 1. og 2. bekkur náði í sitt tré og hér myndir þegar 8. bekkingar sóttu stóra tréð.
Lesa meira
20.11.2020
Líkt og í fyrra tók Þelamerkurskóli þátt í verkefninu Jól í skókassa. Jól í skókassa er verkefni á vegum KFUM&KFUK sem gengur út á að fá fólk til að útbúa jólagjöf handa barni í Úkraínu, en þar glíma margir við sára fátækt, alltof mörg börn búa á munaðarleysingjaheimilum og búa þar við döpur kjör. Að þessu sinni skiluðu nemendur skólans 34 kössum í verkefnið.
Foreldrar voru mjög hjálpsamir við að afla aðfanga til verkefnisins og nemendurnir pökkuðu inn kössunum og röðuðu í þá.
Með þátttöku í verkefninu viljum við undirstrika hversu mikilvægt og gaman það er að hjálpa öðrum og hve samkennd skiptir miklu máli. Það er mikilvægt að geta sett sig í spor annarra og glatt aðra.
Hér eru myndir frá vinnu nemenda.
Lesa meira
20.11.2020
Það er vart til þjóðlegri matur en lifrapylsa og blóðmör og mörg heimili taka slátur á haustin. Eins og allir vita þá er slátur bæði hollur og góður matur og því nauðsynlegt fyrir alla að læra hvernig maður býr til þennan þjóðlega mat. Þrátt fyrir að yfirleitt sé það eldri kynslóðin sem kann yfirleitt til verka í sláturgerðinni teljum við að nauðsynlegt að yngri kynslóðin læri handtökin við sláturgerðina.
Það er löng hefð fyrir því í Þelamerkurskóla að nemendur miðstigs búi til lifrapylsu og blóðmör með umsjónarkennurum sínum. Sláturdagurinn fór fram þann þriðjudaginn þann 27. október. Eins og alltaf stóðu krakkarnir sig með miklum sóma og verkið vannst bæði hratt og vel. Slátrið verður síðan á borðum í mötuneytinu í vetur.
Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru á sláturdaginn.
Lesa meira
02.11.2020
Ferðasjóður 9. og 10. bekkjar í Þelamerkurskóla býður andlitsgrímur og töskur til sölu. Um er að ræða vandaðar andlitsgrímur og sund- eða bakpoka merkta með nafni barns. Ýmsir litir eru í boði eins og sjá má í meðfylgjandi auglýsingu hér.
Pantið hér: https://forms.gle/Bg9U4UrgLoHxVxhk6
Lokadagur pantana er föstudaginn 6. nóvember.
Lesa meira